154. löggjafarþing — 75. fundur,  20. feb. 2024.

mat á endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna.

577. mál
[14:31]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra aðeins út í það hvað það er að fjárfesta í stúdentum, í námsfólki og hver ágóðinn er við það til framtíðar í huga ráðherra. Mér finnst við tala rosalega mikið um, eins ráðherra sjálfur benti á áðan, forgangsröðun á fjármagni sem ráðherra fær í hendurnar til að setja í þennan málaflokk. Horfandi á hversu lág grunnframfærslan er og hversu mikið íslenskir stúdentar neyðast til að vinna með námi sínu, en það er alveg ljóst út frá rannsóknum sem hafa verið gerðar að það er dýrara að hafa nemendur vinnandi með námi frekar en bara að styrkja nemendur til náms, við höfum gögn sem sýna fram á þetta, þá finnst mér rosalega erfitt að sjá að ríkisstjórnin og ráðherrar séu raunverulega að horfa á nám sem fjárfestingu. Þegar við horfum á eitthvað sem fjárfestingu þá sjáum við að peningarnir sem við setjum inn í það (Forseti hringir.) skila sér margfalt til baka. En mig langar til að spyrja ráðherra hvernig hún sér þetta fyrir sér. Hverju skilar það til baka að fjárfesta í stúdentum?

(Forseti (ÁsF): Ég minni þingmenn á ræðutímann.)